Arsenal mátti sætta sig við jafntefli á heimavelli, 1:1, gegn Birmingham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og gæti því misst toppsætið í hendur Manchester United áður en dagurinn er úti.
Arsenal er með 51 stig en Manchester United er með 48 stig og tekur á móti Newcastle kl. 17.15 og kæmist með sigri uppfyrir Lundúnaliðið á markatölu og í toppsætið.
Chelsea lagði Tottenham, 2:0, og er með 47 stig í þriðja sætinu. Liverpool gerði jafntefli við Middlesbrough á útivelli, 1:1, og fór með því uppfyrir Manchester City og í fjórða sætið. Liverpool, Everton, Aston Villa og Manchester City eru nú öll jöfn að stigum með 39 stig.
Arsenal - Birmingham 1:1 Leik lokið
Emmanuel Adebayor kom Arsenal yfir úr vítaspyrnu á 24. mínútu eftir að brotið var á Eduardo. Gary O'Connor hóf seinni hálfleikinn á því að jafna óvænt fyrir Birmingham, 1:1, á 47. mínútu með skalla eftir sendingu frá Sebastian Larsson.
Þar við sat þrátt fyrir þunga sókn Arsenal það sem eftir lifði leiksins.
Lið Arsenal: Almunia - Sagna, Gallas, Senderos, Clichy - Walcott, Fabregas, Flamini, Hleb - Adebayor, Eduardo.
Varamenn: Bendtner, Diaby, Gilberto, Hoyte, Lehmann.
Chelsea - Tottenham 2:0 Leik lokið
Juliano Belletti kom Chelsea yfir með miklum þrumufleyg af 25 m færi á 19. mínútu og Shaun Wright-Phillips bætti við marki, 2:0, á 80. mínútu með skoti frá vítateig eftir sendingu frá Joe Cole.
Lið Chelsea: Cech - Belletti, Carvalho, Alex, A.Cole - Wright-Phillips, Makelele, Ballack, Malouda, J.Cole - Pizarro.
Varamenn: Anelka, Sidwell, Bridge, Ben-Haim, Cudicini.
Lið Tottenham: Cerny - Chimbonda, Dawson, King, Lee - Lennon, Boateng, Malbranque, O'Hara - Berbatov, Keane.
Varamenn: Defoe, Taarabt, Kaboul, Gunter, Robinson.
Middlesbrough - Liverpool 1:1 Leik lokið
George Boateng kom Middlesbrough yfir á 26. mínútu með skoti af markteig eftir skallasendingu frá Jeremie Aliadiere.
Fernando Torres jafnaði fyrir Liverpool, 1:1, á 71. mínútu með skoti af 20 m færi eftir sendingu frá Ryan Babel, sem kom inná sem varamaður fyrir Arbeloa í hálfleik.
Lið Liverpool: Reina - Finnan, Carragher, Hyypiä, Arbeloa - Benayoun, Gerrard, Mascherano, Riise - Torres, Voronin.
Varamenn: Kuyt, Babel, Alonso, Agger, Itandje.
Aston Villa - Reading 3:1 Leik lokið
John Carew kom Aston Villa yfir á 22. mínútu með skalla eftir sendingu frá Ashley Young og Martin Laursen bætti við marki, 2:0, á 54. mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá Young. Carew innsiglaði sigurinn með sínu öðru marki, 3:0, á 88. mínútu eftir sendingu frá Gabriel Agbonlahor. James Harper náði að minnka muninn fyrir Reading, 3:1.
Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson léku báðir sem miðverðir í fimm manna vörn hjá Reading og spiluðu allan leikinn.
Derby - Wigan 0:1 Leik lokið
Derby varð fyrir áfalli á 58. mínútu þegar Claude Davis fékk sitt annað gula spjald og var þar með rekinn af velli. Wigan náði að nýta sér liðsmuninn þegar Antoine Sibierski skoraði, 0:1, á 82. mínútu með skoti af 20 m færi eftir skallasendingu frá Marcus Bent. Sibierski kom inná sem varamaður 43 sekúndum áður en hann gerði markið.
Derby stillti upp gjörbreyttu liði eftir mikil innkaup í vikunni og var með fimm nýkeypta í byrjunarliðinu: Price - Mears, Davis, Todd, Mills - Fagan, Savage, Ghaly, Robert - Villa, Barnes.
Everton - Manchester City 1:0 Leik lokið
Julian Lescott kom Everton yfir á 31. mínútu eftir fyrirgjöf frá Mikel Arteta og það reyndist sigurmarkið í leiknum.
Lið Everton: Howard - Hibbert, Jagielka, Valente, Lescott - Neville, Arteta, Cahill, Carsley, McFadden - Anichebe.
Varamenn: Vaughan, Gravesen, Stubbs, Baines, Wessels.
Lið Man.City: Hart - Onuoha, Dunne, Richards, Ball - Elano, Corluka, Hamann, Petrov - Castillo, Vassell.
Varamenn: Bianchi, Ireland, Gelson, Garrido, Isaksson.
West Ham - Fulham 2:1 Leik lokið
Simon Davies kom Fulham yfir á 8. mínútu, beint úr aukaspyrnu, en Dean Ashton jafnaði fyrir West Ham á 28. mínútu, 1:1, með skalla eftir sendingu frá Freddie Ljungberg.
Anton Ferdinand kom West Ham í 2:1 á 69. mínútu eftir sendingu frá Mark Noble og West Ham krækti í þrjú góð stig en Fulham situr áfram í fallsæti.
Lið West Ham: Green - Spector, Ferdinand, Upson, McCartney - Ljungberg, Mullins, Noble, Etherington - Ashton, Cole.
Varamenn: Boa Morte, Faubert, Bowyer, Collins, Wright.
Burnley - Plymouth 1:0 Leik lokið
Jóhannes Karl Guðjónsson var í byrjunarliði Burnley í 1. deildinni í dag. Honum var skipt af velli í blálokin.
Leikur Manchester United og Newcastle hefst kl. 17.15.