Varnarmaðurinn Rio Ferdinand, sem skoraði eitt marka Manchester United þegar liðið gjörsigraði Newcastle í kvöld, 6:0, sagði að Alex Ferguson knattspyrnustjóri hefði skammað leikmenn sína rækilega í hálfleik.
Staðan var 0:0 í hálfleik en í seinni hálfleik skoraði Cristiano Ronaldo þrjú mörk, fyrstu þrennu sína fyrir Manchester United og Carlos Tévez gerði tvö mörk, auk þess sem Ferdinand komst á blað.
„Við komumst aldrei almennilega í gang í fyrri hálfleik, nýttum ekki þau færi sem við fengum og vorum svekktir. Það var lesið yfir hausamótunum á okkur í hálfleik og í kjölfarið sýndum við hvað í okkur býr í seinni hálfleiknum," sagði Ferdinand en Ferguson er þekktur fyrir að vera hvassyrtur þegar á þarf að halda.
Ferdinand hrósaði Ronaldo mjög. „Hann hefur í tvö ár sýnt að hann getur rifið liðið upp þegar mst liggur við, og megi hann halda því áfram sem lengst. Það var kominn tími á að hann næði að skora þrennu. Alltaf þegar við lendum í basli við að skora koma hann, Wazza (Rooney) eða Carlos Tévez og bjarga málunum," sagði Ferdinand við vefinn Sentana Sports.