Redknapp hafnaði Newcastle

Harry Redknapp hugsaði málið og ákvað að yfirgefa ekki Portsmouth.
Harry Redknapp hugsaði málið og ákvað að yfirgefa ekki Portsmouth. Reuters

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Portsmouth, hafnaði boði um að taka við liði Newcastle og verður áfram við stjórnvölinn hjá Hermanni Hreiðarssyni og félögum hans.

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um brottför Redknapps til Newcastle, þar sem ljóst var strax að Mike Ashby, eigandi Newcastle, ætlaði að leggja mikla áherslu á að fá hann í staðinn fyrir Sam Allardyce, sem var sagt upp störfum í vikunni.

BBC skýrði frá því rétt í þessu að Portsmouth hefði gefið Redknapp frest til hádegis í dag til að ákveða hvort hann vildi vera um kyrrt hjá félaginu en forráðamenn þar á bæ sögðu í gær að það væri alfarið í hans höndum að taka slíka ákvörðun.

„Hann hugleiddi málið í sólarhring og ákvað að vera um kyrrt. Hann vill halda áfram því verki sem hann hefur unnið svo frábærlega að undanfarin ár," sagði talsmaður Portsmouth við BBC.

Redknapp einbeitir sér nú að því að búa lið Portsmouth undir útileik gegn Sunderland í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Það kemur hinsvegar í hlut Nigels Pearsons, þjálfara hjá Newcastle, að stýra stjóralausu liðinu gegn Manchester United í dag. Pearson var á sínum tíma hægri hönd Guðjóns Þórðarsonar hjá Stoke City.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert