Sex mörk og Man.Utd á toppnum

Cristiano Ronaldo fagnar einu markanna í dag en hann skoraði …
Cristiano Ronaldo fagnar einu markanna í dag en hann skoraði þrennu. Reuters

Manchester United gjörsigraði Newcastle, 6:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Cristiano Ronaldo skoraði þrennu. Man.Utd komst þar með uppfyrir Arsenal á markatölu og í efsta sætið í deildinni.

Carlos Tévez skoraði tvö markanna og Rio Ferdinand eitt en öll sex mörkin komu í síðari hálfleik.

Manchester United og Arsenal eru með 51 stig hvort eftir 22 umferðir og Chelsea er í þriðja sætinu með 47 stig. Síðan koma Liverpool, Everton, Aston Villa og Manchester City með 39 stig hvert.

Newcastle er áfram í 11. sæti deildarinnar með 26 stig en hefur nú tapað fjórum leikjum í röð. Nigel Pearson, fyrrum aðstoðarmaður Guðjóns Þórðarsonar hjá Stoke City, stýrði stjóralausu liði Newcastle á Old Trafford í dag.

Ekkert mark í fyrri hálfleiknum

Manchester United sótti mun meira í fyrri hálfleik og fékk nokkur góð færi. Shay Given var vel á verði í marki Newcastle og varði tvisvar mjög vel, auk þess sem Cristiano Ronaldo skallaði framhjá úr dauðafæri.

Þeir Ronaldo og Ryan Giggs féllu í vítateig Newcastle með stuttu millibili en Rob Styles dómari taldi ekki ástæðu til að dæma vítaspyrnur.

Man.Utd slapp með skrekkinn seint í hálfleiknum þegar Michael Owen var dæmdur rangstæður þegar hann slapp einn innfyrir og skoraði, en í ljós kom að um rangan dóm var að ræða. Staðan 0:0 í hálfleik.

Steven Taylor, varnarmaður Newcastle, bjargaði tvívegis á marklínu, frá Carlos Tévez og Wayne Rooney, þegar aðeins hálf mínúta var liðin af síðari hálfleik.

Manchester United náði að brjóta ísinn á 49. mínútu. Cristiano Ronaldo tók þá aukaspyrnu og skaut undir varnarvegginn og í netið, 1:0. Given markvörður hafði hönd á boltanum en náði ekki að forða marki. Tuttugasta mark Portúgalans á tímabilinu.

Á 55. mínútu urðu mistök hjá Newcastle. Shay Given markvörður ætlaði að hreinsa frá marki eftir sendingu til baka en skaut beint í varnarmann sinn. Boltinn hrökk til Ryans Giggs vinstra megin í vítateignum, hann renndi honum fyrir markið á Carlos Tévez sem skoraði auðveldlega, 2:0.

Tévez var aftur á ferð á 70. mínútu. Þá sendi hann boltann í gegnum miðja vörn á Newcastle á Cristiano Ronaldo sem afgreiddi hann af öryggi framhjá Given í markinu, 3:0.

Manchester United komst síðan í 4:0 á 85. mínútu þegar Rooney lyfti boltanum innfyrir vörn Newcastle, miðvörðurinn Rio Ferdinand stakk sér innfyrir og skoraði með viðstöðulausu skoti hægra megin úr vítateignum.

Cristiano Ronaldo fullkomnaði þrennuna á 88. mínútu þegar hann fékk boltann hægra megin í vítateignum, lék laglega á varnarmann og skoraði með skoti í varnarmann Newcastle og í netið, 5:0.

Í uppbótartíma innsiglaði svo Carlos Tévez sigurinn með viðstöðulausu skoti í þverslána og niður. Aðstoðardómari veifaði og taldi að boltinn hefði farið innfyrir marklínu en sjónvarpsmyndir sýndu að það var rangur úrskurður. En markið stóð og lokatölur 6:0. Í kjölfarið fékk Alan Smith, fyrrum leikmaður Manchester United og núverandi leikmaður Newcastle, að líta rauða spjaldið.

Lið Man.Utd: Van der Sar - O'Shea, Ferdinand, Vidic, Evra - Ronaldo, Anderson, Carrick, Giggs - Rooney, Tévez.
Varamenn: Park, Nani, Fletcher, Simpson, Kuszczak.

Lið Newcastle: Given - Carr, Cacapa, Taylor, Enrique - Milner, Butt, N'Zogbia, Duff - Smith, Owen.
Varamenn: Viduka, LuaLua, Emre, Rozehnal, Harper.

Carlos Tévez fagnar marki númer tvö ásamt Wayne Rooney og …
Carlos Tévez fagnar marki númer tvö ásamt Wayne Rooney og Tévez lagði svo upp þriðja markið. Reuters
Wayne Rooney með boltann en Nicky Butt sækir að honum …
Wayne Rooney með boltann en Nicky Butt sækir að honum í leiknum á Old Trafford í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert