Ashley: Mistök að reka ekki Sam strax

Skellur Newcastle á Old Trafford í gær var fullkomnaður þegar …
Skellur Newcastle á Old Trafford í gær var fullkomnaður þegar Alan Smith var rekinn af velli í blálokin. Reuters

Mike Ashley, eigandi enska knattspyrnufélagsins Newcastle, segir að það hafi verið mistök hjá sér að reka ekki Sam Allardyce um leið og hann keypti félagið síðasta sumar.

Allardyce var þá nýtekinn við liðinu og keppni í ensku úrvalsdeildinni var ekki hafin. Ashley lét loks verða af því að láta Allardyce fara í síðustu viku, eftir þrjá tapleiki í röð, og í fyrsta leik eftir það, í gær, steinlá Newcastle fyrir Manchester United, 6:0, á Old Trafford.

„Það var kominn tími til fyrir mig að láta að mér kveða. Ég keypti félagið til að gera það sigursælt og staðreyndin var sú að líkurnar á því voru ekki góðar. Ég keypti það líka til að skemmta mér, en ánægjan var ekki mikil. Ég gerði því það sem ég hefði átt að gera strax og ákvað að reka félagið á þann hátt sem ég vildi," sagði Ashley við dagblaðið News of the World í dag.

„Þegar ég keypti félagið hafði ég á tilfinningunni að best væri að skipta alveg um starfslið, þar á meðal um knattspyrnustjóra. Það hefur ekkert með Sam að gera, þannig vil ég bara hafa hlutina. En í fyrsta skipti á ævinni lét ég tilfinninguna ekki ráða og þegar ég lít til baka, þá voru það mistök. Fyrsta tilfinning hefur aldrei svikið mig á ævinni, í raun hefur hún verið minn mesti styrkur og aðalástæðan fyrir velgengni minni. En samt lét ég hana ekki ráða eftir að ég keypti Newcastle.

Nú er kominn tími til að leggja Newcastle-treyjuna til hliðar. Það er ekki þar með sagt að ég fari ekki aftur út á meðal áhorfendanna en nú hef ég verk að vinna og þarf að vera í stjórnarherberginu," sagði Ashley sem er þekktur fyrir að vera í hópi stuðningsmannanna, klæddur treyju Newcastle, á leikjum liðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert