Bjarni Þór Viðarsson, leikmaður enska liðsins Everton og fyrirliði 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, er til reynslu hjá hollenska úrvalsdeildarliðinu Twente.
Frá þessu er skýrt á vef Twente og sagt að Bjarni verði hjá félaginu út þessa viku. Bróðir hans, Arnar Þór Viðarsson, er samningsbundinn Twente en er í láni hjá öðru hollensku liði, De Graafschap, út þetta tímabil.
Bjarni er 19 ára gamall og hefur verið í röðum Everton í hálft þriðja ár. Hann hefur ekki fengið tækifæri með liðinu í úrvalsdeildinni í vetur en kom inná í leik gegn Alkmaar í Hollandi í UEFA-bikarnum í desember.