Grétar Rafn samdi við Bolton til fjögurra ára

Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson. Reuters

Landsliðsmaðurinn Grétar Rafn Steinsson skrifaði nú í kvöld undir fjögurra ára samning við enská úrvalsdeildarliðið Bolton en hann hefur leikið með hollenska liðinu AZ Alkmaar frá árinu 2005. Bolton greiðir 4,6 milljónir evra fyrir Grétar sem jafngildir 440 milljónum íslenskra króna.

„Mér líst rosalega vel á félagið. Það er mikil fagmennska hjá félaginu, æfingaaðstaðan er eins og best verður á kosið og í leikmannahópnum eru margir frábærir knattspyrnumenn. Ég fann að forráðamenn liðsins vildu fá mig og ég veit að ég fæ tækifæri til þess að sýna hvað í mér býr,“  sagði Grétar við mbl.is nú í kvöld en hann mun leika sinn fyrsta leik með Bolton í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn gegn Newcastle á útivelli.

„Staða okkar í deildinni er ekki góð og menn eru staðráðnir í því að snúa við blaðinu og ég finn að það er mikill hugur í mönnum. Ég ræddi málin við fyrrum og núverandi leikmenn Bolton frá Íslandi. Þar á meðal Guðna Bergsson og að sjálfsögðu Heiðar Helguson sem er núna liðsfélagi minn. Allir sem ég hef rætt við hafa bara gott að segja um Bolton sem félag og ég er ekki í vafa um að það er rétt hjá þeim.“

Grétar mun leika með númer 15 á keppnistreyjunni og hann fór á sína fyrstu æfingu í morgun hjá Bolton. Hann er sjötti leikmaðurinn frá Íslandi sem semur við Bolton. Áður hafa þeir Guðni Bergsson, Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Gunnlaugsson leikið með aðalliðinu. Ólafur Páll Snorrason var samningsbundinn félaginu en lék með unglinga - og varaliði félagsins og Heiðar Helguson gekk í raðir Bolton s.l. sumar frá Fulham. 

Nánar verður rætt við Grétar í Morgunblaðinu á morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert