Reading áfram með varaliðið í bikarnum

Steve Coppell hikar ekki við að hvíla lykilmennina í bikarleikjunum.
Steve Coppell hikar ekki við að hvíla lykilmennina í bikarleikjunum. Reuters

Steve Coppell, knattspyrnustjóri Reading, ætlar að halda uppteknum hætti og tefla varamönnum sínum fram í ensku bikarkeppninni, þegar lið hans tekur á móti Tottenham í kvöld.

Coppell hvíldi nær alla lykilmenn sína, þar á meðal Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson, þegar liðin gerðu jafntefli, 2:2, á White Hart Lane, heimavelli Tottenham, um fyrri helgi. Tottenham tefldi hinsvegar fram sínu sterkasta liði í leiknum.

Sigurliðið í kvöld mætir Manchester United í 4. umferð en Coppell ætlar samt ekki að breyta útaf vananum og nota bikarleikina til að gefa öllum í hópi sínum tækifæri.

„Liðið sem lék á White Hart Lane vann fyrir þessum leik og ég vonast eftir því að það standi sig jafnvel í honum. Reyndar gerði það betur en okkar sterkasta lið sem tapaði 6:4 á White Hart Lane í úrvalsdeildinni um daginn.

Ég er með rúmlega 20 manna hóp og nota bikarinn og deildabikarinn sem tækifæri fyrir þá sem ekki spila mikið í deildinni. Þeir sem ekki spila að staðaldri þar eru vonsviknir og leiðir, þeir vilja spila, og þetta er tækifæri fyrir þá til að sýna hvað í þeim býr. Lið Tottenham verður þétt skipað af landsliðsmönnum og dýrum leikmönnum en það mun ekkert draga úr okkar mönnum," sagði Coppell á vef Reading í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert