Jafntefli hjá Liverpool og Aston Villa

Curtis Davies og Fernando Torres eigast við í leiknum í …
Curtis Davies og Fernando Torres eigast við í leiknum í kvöld. Reuters

Liverpool og Aston Villa skildu jöfn, 2:2, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Anfield í kvöld en Peter Crouch bjargaði þar stigi fyrir Liverpool með því að jafna rétt fyrir leikslok.

Þetta er fjórða jafntefli Liverpool í röð í deildinni og liðið hefur því ekki unnið deildaleik síðan 26. desember þegar það marði sigur á botnliði Derby með marki á síðustu mínútunni.

Liðin tvö lyftu sér upp í 5. og 6. sæti deildarinnar, uppfyrir Manchester City, en öll þrjú liðin eru með 40 stig.

Liverpool náði forystunni á 19. mínútu. Yossi Benayoun fékk sendingu inní vítateig Villa frá Dirk Kuyt og skoraði af miklu harðfylgi, 1:0.

Liverpool var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og átti þá sjö markskot gegn aðeins tveimur.

Þrátt fyrir skothríð að marki Villa framan af seinni hálfleik náði Liverpool ekki að bæta við marki. Liðinu hefndist fyrir það því á 69. mínútu jafnaði Marlon Harewood fyrir Villa af stuttu færi eftir aukaspyrnu, nýkominn inná sem varamaður, 1:1.

Og á 72. mínútu komst Aston Villa í 2:1. Aftur kom markið eftir aukaspyrnu, boltinn féll fyrir fætur Olofs Mellbergs hægra megin í vítateignum og hann þrumaði  boltanum í varnarmann og í netið. Heldur betur óvænt sveifla í leiknum þar sem ekkert stefndi í annað en öruggan sigur Liverpool.

Liverpool náði að jafna, 2:2, á 88. mínútu. Boltinn hrökk þá af Jamie Carragher til varamannsins Peters Crouch í vítateig Aston Villa og hann skoraði með föstu skoti.

Lið Liverpool: Reina - Arbeloa, Carragher, Hyypiä, Aurelio - Benayoun, Mascherano, Gerrard, Kewell - Kuyt, Torres.
Varamenn: Skrtel, Babel, Crouch, Alonso, Itandje.

Lið Aston Villa: Taylor - Mellberg, Laursen, Davies, Bouma - Gardner, Petrov, Reo-Coker, Young - Carew, Agbonlahor.
Varamenn: Osbourne, Cahill, Knight, Harewood, Sörensen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka