Man.Utd tapaði í Riyadh

Leikmenn Manchester United koma til Sádi-Arabíu.
Leikmenn Manchester United koma til Sádi-Arabíu. Reuters

Al Hilal sigraði Manchester United, 3:2, í vináttuleik í knattspyrnu sem fram fór í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu, í dag en leikurinn var til heiðurs þekktasta knattspyrnumanni landsins, Sami Al Jaber.

Al Qahtani kom Sádunum yfir á 19. mínútu en Carlos Tévez og Cristiano Ronaldo svöruðu fyrir United á 25. og 33. mínútu. Sex mínútum síðar fékk Al Hilal ódýra vítaspyrnu en hún var greinilega dæmd til að gefa heiðursleikmanninum Al Jaber tækifæri til að skora í leiknum. Hann nýtti tækifærið og jafnaði úr vítaspyrnunni, 2:2.

Það var svo Bader Al-Khasrashi sem skoraði sigurmark Al Hilal þegar 17 mínútur voru til leiksloka, með glæsilegri hjólhestaspyrnu, um 70 þúsund áhorfendum til mikillar ánægju.

Sami Al Jaber er 35 ára gamall og lék fjórum sinnum með Sádi-Arabíu í úrslitakeppni HM, og náði að skora þrívegis. Hann hefur leikið allan sinn feril, í 20 ár, með Al Hilal, nema hvað hann spilaði fjóra leiki með Wolves í ensku 1. deildinni árið 2001.

Lið United var þannig skipað: Van der Sar (Kuszczak 30, Heaton 65) - Simpson, Ferdinand (Vidic 46), O'Shea, Evra (Hargreaves 46) - Eagles, Fletcher, Anderson (Welbeck 65), Nani - Ronaldo (Park 46), Tévez (Rooney 46)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert