Enska knattspyrnusambandið mun ekki ákæra Alex Ferguson, knattspyrnustjóra Manchester United, fyrir meintar bendingar hans til áhorfenda í leiknum gegn Reading á laugardaginn.
Stuðningsmenn Reading töldu þá að Ferguson hefði „sýnt þeim puttann“ undir lok leiksins. Því neitaði Ferguson og sagðist aðeins hafa verið að fagna því að þrjú stig væru í höfn gegn afar erfiðum mótherjum. Hann átti í orðaskaki við Wally Downes, aðstoðarþjálfara Reading, við varamannabekkina í uppbótartíma leiksins.
Ferguson er enn með lið sitt í Sádi-Arabíu þar sem það æfir í dag og á morgun eftir að hafa leikið heiðursleik fyrir Sami Al Jaber gegn Al Hilal í gær.