Fyrsti sigur Tottenham í níu ár?

Dimitar Berbatov sækir en Gilberto reynir að stöðva hann í …
Dimitar Berbatov sækir en Gilberto reynir að stöðva hann í fyrri viðureign liðanna. Reuters

Leikmenn Tottenham vonast eftir því að brjóta níu ára hefð með því að ná að leggja Arsenal að velli í seinni leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu í kvöld.

Arsenal hefur ekki tapað fyrir Tottenham í níu ár og þrátt fyrir að Arsene Wenger knattspyrnustjóri tefli nánast fram varaliðinu í deildabikarnum er það komið í undanúrslit, einu skrefi frá úrslitaleiknum sem það komst í á síðasta tímabili. Arsenal og Tottenham gerðu jafntefli, 1:1, í fyrri leiknum á Emirates en þar jafnaði Theo Walcott fyrir Arsenal 10 mínútum fyrir leikslok.

„Það vita allir að það er langt síðan við höfum unnið Arsenal en við erum sannfærðir um að nú getum við lagt þá að velli og komist í úrslitaleikinn. Hvernig við förum að því, skiptir ekki máli. Takist það, verður þetta eftirminnilegt kvöld fyrir okkur alla. Við þurfum ekki að segja mikið við leikmennina, það vilja allir taka þátt í þessum leik og vinna hann," sagði Gus Poyet aðstoðarstjóri Tottenham við BBC í dag.

„Tottenham lék vel í fyrri leiknum og nú viljum við snúa því við og komast áfram. Jafnteflið um daginn framlengdi gott gengi okkar gegn Tottenham en ég veit í raun ekki alveg hvers vegna þeir hafa aldrei unnið okkur í meira en átta ár. Þeir hafa alltaf teflt fram góðu liði á þessum tíma en við höfum reyndar oft verið í baráttu um titilinn og því verið afar einbeittir. Kannski verður þetta svo smám saman sálfræðilegt. En við förum þangað með jákvæðu hugarfari, spilum til sigurs, sem þeir gera örugglega líka, þannig að þetta er afar áhugaverður leikur," sagði Arsene Wenger við BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert