Ferguson sendir eigendum Liverpool tóninn

Alex Ferguson segir að knattspyrnustjórar eigi að fá vinnufrið.
Alex Ferguson segir að knattspyrnustjórar eigi að fá vinnufrið. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að eigendur Liverpool hafi komið illa fram við knattspyrnustjóra félagsins, Rafael Benítez.

Fyrir skömmu upplýstu þeir Tom Hicks og George Gillett, hinir bandarísku eigendur Liverpool, að þeir hefðu fyrir jólin rætt við Jürgen Klinsmann um að taka við liðinu af Benítez ef svo færi að hann yrði látinn fara. Þetta kom fram hjá þeim eftir að Klinsmann var ráðinn til Bayern München.

„Þetta var mjög slæm framkoma af hálfu Liverpool, það er alveg á hreinu. Svona lagað getur komið öllu í uppnám. Knattspyrnustjórar eiga alltaf að fá frið til að vinna vinnuna sína. Í stórum félögum er algjört lykilatriði að stjórnendurnir komi fram á óaðfinnanlegan hátt. Arsene Wenger hefur fengið frábæran stuðning hjá Arsenal, sama er að segja um mig allar götur síðan ég kom hingað til Manchester United. Það e rþví mikil samstaða í okkar röðum," sagði Ferguson við BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert