Kevin Keegan knattspyrnustjóri Newcastle segir að það sé ljóst að miðvörðurinn Jonathan Woodgate frá Middlesbrough komi ekki til liðs við hann og sé á leið eitthvert annað. Það er þá væntanlega til Tottenham.
Middlesbrough hefur samþykkt tilboð í Woodgate frá bæði Newcastle og Tottenham og fékk því heimild til að ræða við bæði liðin.
„Á þessari stundu held ég að hann komi ekki til Newcastle og hann fari eitthvert annað, og ég er mjög vonsvikinn. Það er ekkert útlit fyrir að hann komi," sagði Keegan við BBC.
Woodgate lék með Newcastle í hálft annað ár, frá janúarbyrjun 2003 og framí ágúst 2004 en var þá seldur til Real Madrid.