Enska knattspyrnufélagið Leeds United tilkynnti nú síðdegis að Dennis Wise hefði verið leystur undan starfi sínu sem knattspyrnustjóri, til að geta fært sig yfir til Newcastle þar sem hann verður Kevin Keegan til aðstoðar.
Wise mun ljúka undirbúningi liðsins fyrir leik gegn Southend sem er annað kvöld og fara síðan til Newcastle en hlutverk hans þar hefur ekki verið skilgreint nákvæmlega.
Þeir Keegan og Wise þekkjast vel en Wise lék undir stjórn Keegans með enska landsliðinu á sínum tíma.
Wise, sem er 41 árs, lék með Wimbledon í fimm ár og síðan með Chelsea í ellefu ár þar sem hann var fyrirliði um skeið. Hann lék með Leicester í eitt ár, með Millwall í þrjú ár og þar af tvö sem spilandi knattspyrnustjóri, og var síðan leikmaður Southampton og Coventry síðasta tímabilið sitt en hann lagði skóna á hilluna 39 ára gamall vorið 2006. Hann spilaði samtals um 600 leiki í ensku deildakeppninni.
Þá tók hann við sem knattspyrnustjóri Swindon en hafði þar skamma viðdvöl því í október færði hann sig yfir til Leeds. Wise náði ekki að forða því að félagið félli niður í 2. deild í fyrsta skipti en hann var með það á réttri leið því Leeds er í hópi efstu liða 2. deildar, þrátt fyrir að hefja keppni með 15 stig í mínus vegna greiðslustöðvunar.
Wise lék 21 landsleik fyrir Englands hönd, síðast árið 2000, og skoraði eitt mark.