Bjarni Þór Viðarsson skrifaði í dag undir tveggja og hálfs árs samning við hollenska úrvalsdeildarliðið Twente en Bjarni hefur verið á mála hjá enska úrvalsdeildarliðinu Everton frá árinu 2005. Upphaflega stóð til að Bjarni yrði lánaður til Twente út leiktíðina og höfðu félögin náð samkomulagi um það en málin þróuðust á annan veg.
„Það var það mikill áhugi hjá Twente að fá mig alfarið og eftir að liðin komust að samkomulagi um kaupverðið skrifaði ég undir samninginn sem ég er ánægður með,“ sagði Bjarni Þór við mbl.is í dag.
„Það er ákveðin léttir að vera laus frá Everton þar sem síðasta eina og hálfa árið hef ég verið á milli varaliðsins og aðalliðsins en hef ekki fengið þau tækifæri sem ég vonaðist eftir. Til að ná að þroska ferilinn þarf maður að fá að spila og ég vonast til þess mér takist að vinna mér sæti í liði Twente sem allra fyrst. Mér líst afar vel á þjálfarann og allar aðstæður hjá því og ég er auðvitað ekki að fara út í óvissuna því Arnar bróðir hefur spilað í Hollandi undanfarin ár og þekkir vel til hjá Twente. Þetta er gott lið sem ég tel að henti mér vel,“ sagði Bjarni Þór en Arnór Þór, elsti bróðir Bjarna, er samningsbundinn Twente en er í láni hjá Graafschap.