Markið kom eftir fyrirgjöf og boltinn fór í blöðrur sem voru í vítateig City þannig að varnarmaðurinn Michael Ball náði ekki að spyrna frá markinu og Luton Shelton skoraði auðvelt mark.
Samkvæmt því sem leikmenn og forráðamenn City segja var Alan Wiley dómari beðinn um að stöðva leikinn þannig að menn gætu sprengt blöðrurnar, en óvenjumikið var af þeim á þessum leik - og flestar inn í vítateig City. Dómarinn sagði Joe Hart, markverði City, að trampa á þeim þegar boltinn væri hinum megin á vellinum.
Það hefði verið full vinna fyrir Hart því mjög mikið var af blöðrum í vítateignum. „Það er allt í lagi að biðja markverði að trampa á einni og einni blöðru - en ekki þegar vítateigurinn ef fullur af blöðrum. Við kennum stuðningsmönnunum ekkert um þetta tap en dómarinn hefði átt að stöðva leikinn og leyfa okkur að sprengja blöðrurnar,“ sagði Sven-Göran Eriksson, stjóri City.