David Beckham segist sætta sig við að vera ekki valinn í enska landsliðið í knattspyrnu. Hann segist hins vegar ekki vera búinn að gefa upp alla von og að hann muni halda áfram að leggja hart að sér og sé tilbúinn ef kallið komi.
„Ég hef alltaf sagt að ég sé tilbúinn ef þjálfarinn telur sig hafa þörf fyrir mig. Ég gerði það þegar Steve McClaren valdi mig ekki og ég geri það líka núna,“ sagði Beckham áður en landsliðshópurinn var tilkynntur, en Beckham er í Brasilíu þessa dagana.
„Ef ég verð ekki valinn þá verð ég ekki sár og svekktur enda ber ég mikla virðingu fyrir þjálfaranum og veit að lífið heldur áfram þó ég verði ekki í liðinu. Mig dreymdi aldrei um að ná að leika 99 landsleiki þannig að ég er búinn að upplifa meira en mig dreymdi um. Auðvitað væri gaman að ná 100 leikjum og ég mun halda áfram að leggja hart að mér á meðan ég tel mig geta keppt meðal þeirra bestu,“ sagði Beckham.