Hvorki Ívar Ingimarsson né Brynjar Björn Gunnarsson verða með liði Reading þegar það sækir Everton heim á Goodison Park í úrvalsdeildinni á morgun. Brynjar Björn er enn að glíma við meiðsli í nára en Ívar tekur út leikbann vegna fimm gulra spjalda sem hann hefur nælt sér í.
Reading er komið í bullandi fallbaráttu en liðið hefur tapað sex deildarleikjum í röð og hefur spilað níu leiki í röð án sigurs en síðast fagnaði liðið sigri í deildinni þann 22. desember á síðasta ári.
Everton er hins vegar í fjórða sæti og er í baráttunni um Meistaradeildarsæti en Everton er enn ósigrað í deildinni á þessu ári en hefur ekki náð að skora í síðustu þremur leikjum sínum.