Enski landsliðsmaðurinn Micah Richards hefur skrifað undir nýjan fimm ára samning við Manchester City. Þessi 19 ára gamli varnarmaður var samningsbundinn City til ársins 2010 en er nú bundinn félaginu til ársins 2013.
Richards er talinn einn efnilegasti varnarmaðurinn í ensku knattspyrnunni í dag en hann skaust fram á sjónarsviðið í fyrra og vann sæti í enska landsliðinu. Hann á að baki 11 leiki fyrir Englendinga í stöðu hægri bakvarðar en hefur á þessari leiktíð spilað sem miðvörður með Manchester-liðinu.
Richards gekk til liðs við Manchester City frá unglingaliði Oldham árið 2002 en hann hefur vakið áhuga stóru liðanna, þar á meðal Arsenal og Chelsea.
„Ég hef alltaf viljað vera áfram hjá félaginu og að skrifa undir þennan samning verður til þess að sögusagnirnar geta nú hætt og ég einbeitt mér að fótboltanum það sem eftir lifir tímabilsins,“ segir Richards á vef Manchester City.