Aston Villa lék Newcastle grátt í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag og sigraði 4:1 eftir að hafa verið 0:1 undir í hálfleik. John Carew skoraði þrennu fyrir Aston Villa sem lyfti sér uppfyrir Liverpool og í fimmta sætið með sigrinum, og er með jafnmörg stig og Everton sem er í fjórða sætinu.
Wilfred Bouma skoraði fyrsta mark Villa, jafnaði þá í byrjun síðari hálfleiks, en Michael Owen skoraði mark Newcastle strax á 4. mínútu leiksins.
Newcastle situr áfram í 12. sæti deildarinnar með 28 stig, er sjö stigum frá fallsæti og hefur ekki unnið í síðustu níu deildaleikjum, eða síðan 15. desember. Þetta var fjórði deildaleikurinn undir stjórn Kevins Keegans og hann hefur aðeins krækt í tvö stig.
Michael Owen kom Newcastle yfir strax á 4. mínútu þegar hann skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá James Milner. Boltinn breytti stefnu af Gareth Barry á leið sinni í markið.
Shay Given markvörður Newcastle varði vel úr besta færi Villa í fyrri hálfleik, skalla frá John Carew.
Aston Villa átti 7 markskot í fyrri hálfleik en Newcastle 2. Þó var Newcastle sterkari aðilinn á löngum köflum í hálfleik og var nokkuð verðskuldað yfir í hálfleik, 1:0.
Aston Villa fékk óskabyrjun í síðari hálfleik. Á 48. mínútu komst Shaun Maloney að endamörkum vinstra megin og renndi boltanum útfyrir vítateiginn á Wilfred Bouma. Hann skaut meinleysislegu skoti en boltinn sigldi framhjá varnarmönnum, Given markverði og í markhornið nær, 1:1.
Og aðeins hálfri annari mínútu síðar, á 50. mínútu, skoraði John Carew með skalla í stöng og inn eftir hornspyrnu Ashleys Youngs frá vinstri, 2:1 fyrir Aston Villa.
Shay Given markvörður Newcastle yfirgaf völlinn á 54. mínútu og Steve Harper leysti hann af hólmi.
Á 72. mínútu komst Aston Villa í 3:1 eftir að hafa gert harða hríð að marki Newcastle. Craig Gardner átti tvö hörkuskot sem Steve Harper varði bæði mjög vel. Eftir það seinna, hornspyrnu og hjólhestaspyrnu Gareths Barry að marki Newcastle, stýrði John Carew boltanum í netið úr markteignum. Annað mark Norðmannsins hávaxna.
Á 89. mínútu var dæmd vítaspyrna á Stephen Carr, bakvörð Newcastle, fyrir að handleika knöttinn. John Carew skoraði úr henni með þrumufleyg og innsiglaði þrennuna og sannfærandi sigur Aston Villa, 4:1.
Villa var með umtalsverða yfirburði lengst af í síðari hálfleik og til marks um það átti Newcastle ekki markskot í hálfleiknum fyrr en átta mínútur voru eftir.