Nigel Pearson, sem á sínum tíma var hægri hönd Guðjóns Þórðarsonar hjá Stoke City, er farinn frá Newcastle en þar starfaði hann sem þjálfari. Honum er ofaukið eftir að Kevin Keegan tók við liðinu.
Pearson kom til liðs við Newcastle í október 2006, þá til að vera þáverandi knattspyrnustjóra, Glenn Roeder, til aðstoðar. Hann tók síðan tvisvar við liðinu til bráðabirgða, í maí 2007 eftir að Roeder hvarf á braut, og aftur í janúar þegar Sam Allardyce var sagt upp störfum. Pearson stýrði þá liðinu gegn Manchester United í úrvalsdeildinni og gegn Stoke í bikarkeppninni.
Eftir að Keegan var ráðinn knattspyrnustjóri Newcastle hafa Dennis Wise, Tony Jimenez og Jeff Vetere verið ráðnir til félagsins sem aðstoðarmenn hans.