George heitinn Best er að margra áliti hæfileikaríkasti leikmaðurinn í sögu Manchester United og þótt víðar væri leitað. Hann var útherji með kostulega knatttækni og kunni hvergi betur við sig en með rammvillta varnarmenn í kringum sig – nema ef vera skyldi á knæpunni.
Vegna leikstíls og getu er Cristiano Ronaldo iðulega borinn saman við Best. Hann er raunar ekki sá fyrsti á umliðnum áratugum en Paddy Crerand, fyrrverandi leikmaður Manchester United, hittir naglann á höfðuðið þegar hann trúir breska blaðinu The Times fyrir því að Ronaldo sé frábrugðinn fyrri umsækjendum um nafnbótina „Hinn nýi George Best“.
„Ronaldo er sá fyrsti sem komið hefur fram á sjónarsviðið sem er þess umkominn að vera nefndur í sömu andrá og George,“ segir Crerand, sem lék lengi með Best. „Þeir eru um margt líkir. Leika auðveldlega á andstæðinga, jafnvígir á báða fætur og frábærir skallamenn. Svo hafa þeir báðir útlitið með sér! Umfram allt er Cristiano samt gæddur sömu hvatvísinni og George. Ég hef séð ófáa kappleikina um dagana en það fer ávallt fiðringur um mig þegar ég veit að Cristiano er að fara að spila.“
Í grein Orra Páls Ormarssonar í Morgunblaðinu í dag greinir frá óvenjulegri skottækni Ronaldos - m.a. undraspyrnu hans gegn Portsmouth um síðustu helgi, þar sem Portúgalinn skoraði frábært mark beint úr aukaspyrnu.
Þar segir:
Það er gömul saga og ný að fremstu sparkendur beygi tuðruna og sveigi með innanfótarspyrnum en hrein ristarspyrna af þessu tagi, þar sem boltinn rís fyrstu metrana en missir svo skyndilega hæð eins og allt loft sé úr honum, er sjaldséð.
„Hvert er leyndarmálið? Það gef ég ekki upp,“ sagði Ronaldo eftir leikinn og glotti út í annað. „Ég get þó upplýst að allt veltur þetta á líkamsstöðunni, tilhlaupinu og aðkomunni að knettinum.“
Það skýrir ritúalið fyrir hverja spyrnu. Fjögur stór skref til baka, djúpan andardrátt og myndastyttuleikinn. Þetta eru vísindi.
Glöggir sparkrýnendur hafa veitt því athygli að í stað þess að leggja knöttinn frá sér, líkt og flestir aukaspyrnendur, þrýstir Ronaldo honum niður í svörðinn. Þetta gerir það að verkum að þegar leikmaðurinn nálgast knöttinn mjakar þunginn frá vinstri fætinum honum lítillega upp úr grasinu sem aftur gerir Ronaldo kleift að lyfta knettinum með þeim hægri yfir varnarvegginn. Spyrnan fær í raun eiginleika spyrnu sem tekin er á lofti, rís fyrst en missir svo skyndilega hæð í tæka tíð áður en knötturinn syngur í netinu.