Landsleikirnir tóku sinn toll

Carlos Tévez skorar fyrir United í dag þrátt fyrir góða …
Carlos Tévez skorar fyrir United í dag þrátt fyrir góða tilburði hjá Joe Hart, markverði City, en markið var dæmt af. Reuters

Carlos Queiroz, aðstoðarstjóri Manchester United, sagði að fjarvera margra leikmanna liðsins vegna landsleikja í liðinni viku hefði tekið sinn toll af liðinu og átt þátt í tapinu gen Manchester City í dag, 1:2.

„Sjö úr okkar liði léku heilan leik á miðvikudag. Það var því viðbúið að menn væru ekki alveg á tánum og í sínu ferskasta formi, og þannig fór leikurinn af stað hjá okkur. Við hófum ekki leikinn á réttum hraða. Þetta var leikur þar sem allir vildu gera sitt besta til að sigra en vantaði neistann fyrri hluta leiksins.

Kannski vorum við of áhyggjufullir og um leið var lið Manchester City mjög hreyfanlegt og öflugt í skyndisóknum sínum," sagði Queiroz við Sky Sports en hann sat fyrir svörum þar í stað Alex Fergusons  að þessu sinni.

Queiroz var einnig í viðtali í sjónvarpsstöð Manchester United, MUTV. „Það er mikið eftir af baráttunni um meistaraleikinn og margir leikir framundan. Nú verðum við að gleyma þessum og byrja uppá nýtt á mánudaginn. Við erum ekki orðnir lélegir vegna eins leiks, við erum enn með gott lið sem getur orðið meistari. Það er nauðsynlegt að við sýnum gegn Arsenal um næstu helgi að þessi leikur var slys og við séum enn í baráttunni um titlana," sagði Portúgalinn en toppliðin tvö í ensku úrvalsdeildinni mætast í bikarkeppninni um næstu helgi, á Old Trafford.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert