Öflugt lið Chelsea gegn Liverpool

Frank Lampard gæti spilað með Chelsea á ný í dag.
Frank Lampard gæti spilað með Chelsea á ný í dag. Reuters

Útlit er fyrir að Chelsea verði með sterkara lið í dag þegar félagið tekur á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu heldur en undanfarnar vikur þegar margir lykilmenn hafa verið fjarverandi.

Leikur liðanna hefst kl. 16.00 á Stamford Bridge í London, heimavelli Chelsea.

Frank Lampard hefur jafnað sig af meiðslum í læri, Mikel John Obi er kominn aftur eftir að hafa tekið þátt í Afríkukeppninni með liði Nígeríu og þá er miðvörðurinn Ricardo Carvalho búinn að afplána leikbann. Þá eru enn fjarverandi fimm sterkir, Andriy Shevchenko og John Terry sem eru meiddir og þeir Michael Essien, Salomon Kalou og Didier Drogba sem fóru með liðum sínum í úrslitaleikina um verðlaunasæti í Afríkukeppninni um helgina.

Hópur Chelsea er þannig: Cech, Cudicini, Hilario, Ferreira, Belletti, Carvalho, Ben-Haim, Alex, A Cole, Bridge, Ivanovic, Lampard, Makelele, Obi, J Cole, Wright-Phillips, Anelka, Pizarro, Malouda, Ballack, Sidwell.

Hjá Liverpool vantar þá Fernando Torres, Andriy Voronin, Fabio Aurelio, Alvaro Arbeloa og Daniel Agger sem eru meiddir. Ryan Babel er tæpur og Xabi Alonso tekur út leikbann.

Hópur Liverpool er þannig: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Skrtel, Riise, Pennant, Mascherano, Gerrard, Babel, Benayoun, Kewell, Lucas, Crouch, Kuyt, Itandje.

Chelsea hefur þrátt fyrir allar fjarvistirnar undanfarnar vikur ekki tapað í síðustu 13 leikjum sínum og aðeins einu sinni í síðustu 30 mótsleikjum. Á heimavellinum, Stamford Bridge, er árangur Chelsea ógnvænlegur því frá 21. febrúar 2004 hefur liðið leikið þar 75 deildaleiki án taps og unnið 56 þeirra.

Liverpool er hinsvegar með þriðja besta árangur allra liða á útivöllum í vetur og hefur þar náð í 22 stig. Aðeins Chelsea (26) og Arsenal (25) hafa gert betur. Þá hefur Liverpool aðeins fengið á sig 8 mörk í 12 útileikjum í deildinni í vetur, færri en nokkurt annað lið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert