Sterka menn vantar í Manchesterslagnum

Hinn 6. febrúar 1958 verður ofarlega í hugum margra í …
Hinn 6. febrúar 1958 verður ofarlega í hugum margra í Manchester áður en flautað verður til leiks í dag. Reuters

Bæði Manchester United og Manchester City sakna sterkra leikmanna í borgarslagnum mikla á Old Trafford í dag en leikur liðanna sem lengi hefur verið beðið eftir hefst þar kl. 13.30. Tveir leikmenn úr hvoru liði eru í leikbanni í dag.

Fyrir leikinn verður þeirra 23 sem fórust í flugslysinu í München 6. febrúar 1958 minnst með einnar mínútu þögn. Nokkur taugatitringur er vegna þess að talið er að hluti af stuðningsmönnum City muni ekki virða þögnina og láta í sér heyra á meðan en forráðamenn City hafa hótað þeim öllu illu ef þeir haga sér illa, m.a. að útiloka þá frá leikjum félagsins í náinni framtíð.

Hjá United vantar þá Wayne Rooney og Patrice Evra sem báðir eru í leikbanni og Louis Saha er frá vegna meiðsla. Alex Ferguson hefur viðrað þann möguleika að vera með 17 ára pilt, Danny Welbeck, í fremstu víglínu í dag.

Hópur United er þannig: Van der Sar, Kuszczak, Brown, O'Shea, Simpson, Ferdinand, Vidic, Fletcher, Nani, Park, Scholes, Ronaldo, Anderson, Carrick, Hargreaves, Giggs, Tevez, Welbeck.

Hjá City eru öflugir leikmenn fjarverandi því bæði miðjumaðurinn Elano og varnarmaðurinn Vedran Corluka eru í banni en þeir hafa báðir verið í stórum hlutverkum hjá liðinu í vetur. Hinsvegar hefur enski landsliðsmaðurinn Micah Richards jafnað sig af meiðslum og verður með og þá spilar Benjani Mwaruwari væntanlega sinn fyrsta leik með liðinu eftir að hafa verið óvænt keyptur frá Portsmouth á síðustu stundu um mánaðamótin.

Hópur City er þannig: Hart, Jihai, Onuoha, Dunne, Richards, Ball, Hamann, Fernandes, Petrov, Vassell, Mpenza, Ireland, Sturridge, Benjani, Geovanni, Schmeichel, Garrido, Caicedo, Etuhu.

Sautján stig skilja liðin að í fyrsta og áttunda sæti en City vann fyrri leik liðanna á sínum heimavelli í byrjun tímabilsins, 1:0, og freistar þess að vinna granna sína tvöfalt í fyrsta skipti í 38 ár. En United hefur verið óstöðvandi á heimavelli, unnið þar síðustu 13 leiki sína.

City hefur ekki unnið á Old Trafford í 33 ár, eða síðan Denis Law, ein mesta hetjan í sögu United, skoraði þar sigurmark City, 1:0, þann 27. apríl 1974 og sendi með því sitt gamla og ástkæra félag niður í næstefstu deild.

Manchester United leikur í "gömlum" búningum í dag, án auglýsinga, og leikmenn verða merktir númerunum 1-11 eins og tíðkaðist á árum áður en ekki eftir hinu hefðbundna fastnúmerakerfi sem verið hefur við líði í seinni tíð. Manchester City leikur í búningum án auglýsinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert