Arsenal er komið með fimm stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2:0 sigur á Blackburn á Emirates Stadium í kvöld. Svissneski miðvörðurinn Phillipe Senderos skoraði fyrra markið með skalla á 4. mínútu leiksins og Emmanuel Adebayor bætti við öðru á lokamínútu leiksins.
Sigur Arsenal var sanngjörn þrátt fyrir að liðið hafi oft leikið betur. Blackburn barðist vel en náði ekki að ógna marki Arsenal að neinu viti á meðan heimamenn fengu nokkur færi til að bæta við mörkum.
Arsenal hefur þar með hlotið 63 stig, Manchester United er í öðru með 58 og Chelsea í þriðja sæti með 55 stig.
Textalýsing frá leiknum er hér að neðan.
89. (2:0) Emmanuel Adebayor skorar með hnitmiðuðu skoti eftir skyndisókn Arsenal-manna og góðan undirbúning frá Hleb. Adebayor hefur þar með skorað 19 mörk í úrvalsdeildinni, jafnmörg og Cristiano Ronaldo.
Mark Hughes, stjóri Blackburn, gerir tvöfalda skiptingu á liði sínu á 77. mínútu. Tugay og McCarthy fara af leikvelli og í þeirra stað eru komnir Aaron Mokoena og Jason Roberts.
Emmanuel Adebayor hefur í tvígang á skömmum tíma gert sig líklegan til að skora en Brad Friedel markvörður Blackburn varði frá honum í bæði skiptin.
20 mínútur eru nú til leiksloka og hafa heimamenn enn 1:0 yfir. Leikurinn í síðari hálfleik hefur verið nokkuð í járnum en Blackburn hefur ekki náð að skapa sér nein færi en Hleb og Fabregas áttu góð skot sem voru ekki langt frá því að þenja út netmöskvana.
Hvít-Rússinn Aleksandr Hleb var hársbreidd frá því að koma Arsenal í 2:0 en þrumuskoti hans úr vítateignum small í stönginni.
Steve Bennett dómari hefur flautað til leikhlés á Emirates og er Arsenal 1:0 yfir. Mark frá Phillipe Senderos á 4. mínútu skilur liðin að. Arsenal var miku sterkari fyrstu 25 mínúturnar en voru gestirnir sóttu mjög í sig veðrið og á lokakaflanum og fengu tvö ágæt færi til að jafna metin.
Blackburn hefur sótt í sig veðrið síðari hlutann í fyrri hálfleik og ekki mátti miklu muna að gestirnir næðu að jafna metin á 36. mínútu en eftir fyrirgjöf frá Brett Emerton fékk Benni McCarthy gott skallafæri en hitti boltann illa.
Arsenal fékk gullið tækifæri til að komast í 2:0. Flamini fékk sendingu innfyrir vörn Blackburn en Brad Friedel varði skot Frakkans vel með fætinum.
4. (1:0) Svisslendingurinn Philippe Senderos skorar með föstum skalla eftir hornspyrnu frá Króatanum Eduardo. Senderos var einn og óvaldaður í vítateignum og átti Brad Friedel markvörður Blackburn enga möguleika á að verja skotið. Þetta var annað mark Senderos á tímabilinu.
Lið Arsenal: Jens Lehmann - Bacary Sagna, William Gallas, Philippe Senderos, Gael Glichy, Alexander Hleb, Gilberto Silva, Cesc Fabregas, Mathieu Flamini - Emmanul Adebayor, Eduardo da Silva. Varamenn: Lukasz Fabienski, Kerrea Gilbert, Justin Hoyte, Armans Traore, Nicklas Bendtner.
Lið Blackburn: Brad Friedel, Bruno Berner, Zuran Khizanishivili, Andre Ooijer, Stephen Warnock, David Bentley, Brett Emerton, Tugay Kerimoglu, Steven Reid, Benny McCarthy, Roque Santa Cruz. Varamenn: Jason Brown, Tony Kane, Aaron Mokoena, Maceo Rigters, Jason Roberts.
Fyrir leikinn:
Arsenal og Chelsea eru einu liðin sem ekki hafa beðið ósigur á heimavelli á tímabilinu en Arsenal hefur aðeins einu sinni tapað á Emirates Stadium í 47 leikjum. Eini tapleikur Arsenal á tímabilinu kom gegn Middlesbrough 9. desember en síðan hefur liðið unnið 7 leiki og gert tvö jafntefli.
Blackburn hefur aðeins unnið einn af síðustu 10 leikjum sínu í höfuðborginni en liðið lagði Tottenham á White Hart Lane í október. Blackburn hefur gert jafntefli í síðustu þremur leikjum sínum og það hefur ekki tapað í síðustu sjö leikjum sínum í úrvalsdeildinni en síðast tapaði liðið fyrir Chelsea þann 23. desember.