Emmanuel Adebayor framherjinn snjalli hjá Arsenal sagði eftir sigur sinna manna á Blackburn í kvöld að nú væri mikilvægt að leikmenn héldu einbeitingu en eftir sigurinn í kvöld náði Lundúnaliðið fimm stiga forskoti á toppi úrvalsdeildarinnar.
Adebayor skoraði síðara mark Arsenal í leiknum og hann er þar með orðinn markahæstur í deildinni ásamt Cristiano Ronaldo en báðir hafa þeir skorað 19 mörk.
„Gærdagurinn var mjög góður fyrir okkur þar sem bæði Manchester United og Chelsea töpuðu stigum. Við vissum því að við gætum náð fimm stiga forskoti og við ætluðum ekki að sleppa því. Nú er mikilvægt að við leikmennirnir höldum einbeitingunni og við megum ekki ekkert slaka á þótt staðan sé góð,“ sagði Adebayor eftir leikinn.
„Við erum mjög ánægðir að vera á þeim stað sem við erum á. Við áttum ekki von á að vera með þetta forskot en þetta er engan veginn búið. Við sáum það í gær með úrslitunum að deildin er jöfn og þann dag sem þú ert ekki í þínu besta formi er hægt að tapa fyrir hvaða liði sem er. Við byrjuðum afar vel í kvöld en Blackburn náði að vinna sig inn í leikinn en vörnin okkar var þétt fyrir og gaf engin færi á sér,“ sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal.