Enska knattspyrnufélagið Everton hefur sent út aðvörun til stuðningsmanna sinna fyrir leikinn gegn Brann í UEFA-bikarnum sem fram fer í Bergen á fimmtudaginn kemur.
Ekki er þó verið að vara fólk við því að haga sér skikkanlega á leiknum eða við rigningunni frægu í Bergen. Nei, það er dýrtíðin í Noregi sem er aðal áhyggjuefnið.
„Stuðningsmenn sem ferðast til Noregs verða að hafa í huga að verðlag þar er mikið hærra en á Bretlandseyjum og að þeir verða að hafa rafrænan aðgang að fúlgum fjár," segir m.a. á vef Everton og þar eru stuðningsmennirnir jafnframt varaðir við því að láta ekki sjá sig með áfengi á almannafæri.
Everton fékk 950 miða á leikinn sem fram fer á leikvangi Brann klukkan 19 á fimmtudagkvöldið að íslenskum tíma. Kristján Örn Sigurðsson og Ólafur Örn Bjarnason verða að óbreyttu í vörn norsku meistaranna og Gylfi Einarsson gæti komið við sögu en Ármann Smári Björnsson er fjarri góðu gamni vegna meiðsla.