Áfrýjun West Ham á rauða spjaldinu sem Lee Bowyer, miðjumaður liðsins, fékk í leiknum við Birmingham í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn bar árangur því brottvísunin var felld niður í dag.
Bowyer fékk rauða spjaldið hjá Mark Clattenburg dómara undir lok leiksins fyrir meinta tveggja fóta tæklingu. Alan Curbishley knattspyrnustjóri West Ham mótmælti því strax og West Ham áfrýjaði spjaldinu formlega í gær.
Eftir að aganefnd knattspyrnusambandsins hafði skoðað atvikið af myndbandi varð niðurstaðan sú að brottvísunin hefði ekki átt rétt á sér og þar með þarf Bowyer ekki að taka út þriggja leikja bann, eins og annars hefði verið óumflýjanlegt.