Moyes býst við erfiðum leik í Bergen

David Moyes svarar spurningum á fréttamannafundinum í Bergen.
David Moyes svarar spurningum á fréttamannafundinum í Bergen. Reuters

David Moyes knattspyrnustjóri Everton á von á erfiðum leik gegn Íslendingaliðinu Brann, norsku meisturunum, þegar liðin mætast í Bergen í kvöld en það er fyrri leikur þeirra í 32-liða úrslitum UEFA-bikarsins.

Kristján Örn Sigurðsson og Ólafur Örn Bjarnason verða þar í miðvarðastöðunum hjá Brann, Gylfi Einarsson gæti verið í leikmannahópnum en Ármann Smári Björnsson er frá vegna meiðsla.

„Við höfum skoðað lið Brann margoft af myndböndum og þekkjum til sumra leikmannanna. M.a. Eirik Bakke sem er vel þekktur í Englandi og framherjann þeirra, Thorstein Helstad, sem er með mjög góða tölfræði," sagði Moyes, en vísaði um leið á bug fregnum um að hann hefði verið nálægt því að kaupa Helstad fyrir skömmu.

Moyes lét fylgjast sérstaklega vel með liði Brann þegar það dvaldi á La Manga á Spáni í síðustu viku. „Okkar maður kom aftur heim ágætlega sólbrúnn eftir að hafa skoðað lið Brann þar," sagði Moyes í léttum dúr.

Hann sagði að Brann spilaði að nokkru leyti breskan fótbolta. „Það verður síðan að koma í ljós hvernig það hentar okkur. Þetta er vel skipulagt lið þar sem menn vinna hver fyrir annan en leikur þess snýst ekki um ákveðna einstaklinga. Við þurfum ekki að gæta okkur á einhverjum sérstökum, heldur á liðinu í heild, miðað við allar þær upplýsingar sem við höfum viðað að okkur," sagði Moyes á blaðamannafundi í Bergen og aftók með öllu að Evertonmenn teldu sig eiga víst sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.

„Við vanmetum hvorki Brann né norskan fótbolta. Þetta er afar mikilvægur leikur fyrir okkur. Ég á von á því að lið Brann mæti vel undirbúið til leiks, enda þótt keppnistímabilið sé ekki hafið í Noregi," sagði Moyes.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert