Ronaldo með milljón í SMS-sektir

Þau voru dýr, sms-skilaboðin sem Ronaldo sendi og Ferguson komst …
Þau voru dýr, sms-skilaboðin sem Ronaldo sendi og Ferguson komst á snoðir um. Reuters

Alex Ferguson hefur bannað leikmönnum Manchester United að senda sms-skilaboð á meðan liðið er saman á æfingasvæði félagsins í Carrington. Viðurlög við því eru þungar sektir og Cristiano Ronaldo hefur heldur betur fengið að kenna á því.

Samkvæmt frétt Manchester Evening News hefur knattspyrnustjórinn sigursæli fjórum sinnum á skömmum tíma staðið portúgalska snillinginn að því að senda sms-skilaboð úr símanum sínum á æfingasvæðinu, og það er engin miskunn hjá Magnúsi - eða Sir Alex í þessu tilfelli. Sama hvað stjarnan heitir.

Sektin hjá Ferguson er sögð 2.000 pund, eða um 264 þúsund krónur, fyrir hvert sms sem sent er í leyfisleysi, og Ronaldo er samkvæmt því kominn yfir eina milljón króna í sekt fyrir að geta ekki hamið sig í smáskilaboðunum.

Ferguson hefur aldrei látið stjörnur félagsins komast upp með neitt múður og David Beckham fékk m.a. að kenna á því á sínum tíma en Ferguson rak hann eitt sinn af æfingu fyrir að fara ekki eftir settum reglum eins og aðrir leikmenn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert