Þrekþjálfari enska knattspyrnuliðsins Tottenham Hotspur hefur upplýst að leikmenn liðsins hafi verið alltof þungir þegar Juande Ramos tók við sem knattspyrnustjóri í október. Strax hafi verið sett upp það markmið að losa þá við 100 kíló.
„Þegar tekið var mið af hæð leikmannanna áætluðum við strax að þeir væru samtals um 100 kílóum of þungir. Það sást strax að liðið burðaðist með of mikið af aukakílóum. Nú hefur okkur tekist að létta þá um 40-50 kíló en það verður þrautin þyngri að ná hinum helmingnum af þeim, sagði þrekþjálfarinn Marcos Alvarez í samtali við spænsku útvarpsstöðina Cadena SER.
„Þegar ég kom til félagsins sá ég strax hvað var í gangi, við ræddum málin og settum aðgerðir strax í gang. Við höfum breytt mikilli fitu í vöðva á þessum tíma," sagði Alvarez, sem kom með Ramos til Tottenham.
Ramos tók við liði Tottenham í fallsæti ensku úrvalsdeildarinnar en nú er það komið uppí 11. sætið, er komið í úrslit deildabikarsins og er enn með í UEFA-bikarnum.