Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool þykir orðinn valtur í sessi eftir tap á heimavelli fyrir 1. deildarliði Barnsley í bikarnum í dag. Liverpool tekur á móti Inter í Meistaradeildinni á þriðjudaginn og líklega mun Benítez stýra liðinu í þeim leik en eftir hann gæti dregið til tíðinda.
„Ég held að pressan sé ekkert meiri á mér núna heldur en áður. Þegar lið manns tapar kemur alltaf pressa. Ég er að vonum afar svekktur með niðurstöðuna. Við fengum hvert færið á fætur öðru en markvörður þeirra var frábær og ég hef ekki tölu hve oft liðsmenn Barnsley björguðu á línu. Ég get ekki skellt skuldinni á neinn leikmann en nú er þessi leikur að baki, við getum engu breytt úr þessu og næst er það Inter,“ sagði Benítez.
Simon Davey knattspyrnustjóri Barnsley var hrærður í leikslok og skal engan undra. „Það er erfitt að koma orðum að þessu. Þessi úrslit eru draumi líkast. Að koma með lið sitt á Anfield og skora sigurmarkið með lokaspyrnu leiksins er yndislegt. Allir mínir leikmenn eru hetjur,“ sagði Davey.