Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal segist ekkert vera á förum frá félaginu og gefur lítið út á þær fregnir að Barcelona hyggist fá hann í sumar og taka við liðinu af Frank Rijkaard.
„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég er orðaður við Barcelona en ég hef ekki uppi nein áform að fara frá Arsenal. Ég er ánægður þar sem ég er,“ segir Wenger við breska blaðið Observer.
Wenger skrifaði í haust undir nýjan samning við Lundúnaliðið og er bundinn því til ársins 2011 en Frakkinn hefur verið við stjórnvölinn hjá Arsenal frá árinu 1996 og hefur gert frábæra hluti fyrir félagið á þessum tíma.