Enska knattspyrnusambandið tilkynnti nú undir kvöld að það myndi ekki leggja fram ákæru á hendur William Gallas, fyrirliða Arsenal, fyrir meint brot á Nani í bikarleiknum gegn Manchester United á laugardaginn.
Á sjónvarpsmyndum virtist sem Gallas hefði sparkað aftan í Nani í leiknum og Alex Ferguson knattspyrnustjóri United sagði að Gallas hefði verðskuldað rauða spjaldið.
„Dómarinn taldi að eftir myndbandinu væri ekki hægt að fullyrða að um gróft brot væri að ræða og þar með verður ekki gripið til neinna aðgerða," sagði talsmaður knattspyrnusambandsins.
Alan Wiley dæmdi leikinn og hann hefði þurft að vera sannfærður um að um brot hefði verið að ræða, til að ákæra yrði lögð fram. Þegar þetta atvik átti sér stað hafði hann þegar rekið Emmanuel Eboue, leikmann Arsenal, að velli.