Hermann: Ég á þetta mark

Hermann Hreiðarsson stóð sig vel með Portsmouth í gær.
Hermann Hreiðarsson stóð sig vel með Portsmouth í gær. Reuters

Hermann Hreiðarsson segist ekki hafa notað höndina rétt áður en Darren Carter leikmaður Preston skoraði sjálfmark og tryggði Portsmouth farseðilinn í 8-liða úrslit í ensku bikarkeppninni í gær. Hermann segir á heimasíðu Portsmouth að hann eigi markið því boltinn hafi verið á leið í netið þegar Carter spyrnti boltanum.

Eftir hornspyrnu frá Niko Kranjar virtist boltinn hafa viðkomu í hönd Hermans áður en Carter spyrnti boltanum upp í þaknetið.

„Ég vil eigna mér þetta mark. Leikmaðurinn reyndi að hreinsa og sparkaði boltanum upp í þaknetið en boltinn var þegar á leið í netið og því er þetta mitt mark. Boltinn kom inn á svæðið og hafði viðkomu í handleggnum á mér en þetta var bolti í hönd en ekki hönd í bolta. Því var ekki um neitt brot að ræða,“ segir Hermann á vef Portsmouth.

Hermann segir að leikmenn Portsmouth hafi sýnt mikinn vilja og karakter. „Við lékum svo sem ekkert vel en við náðum að knýja fram sigur sem öllu máli skiptir. Lið Preston kom okkur ekkert á óvart. Þeir börðust vel og ég get vel skilið gremju þeirra en við erum ánægðir að vera komnir áfram,“ segir Hermann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert