Pearson tekur við Southampton

Nigel Pearson er tekinn við liði Southampton.
Nigel Pearson er tekinn við liði Southampton. Reuters

Nigel Pearson, sem á sínum tíma var aðstoðarmaður Guðjóns Þórðarsonar hjá Stoke City, var í dag ráðinn knattspyrnustjóri enska 1. deildarliðsins Southampton.

Pearson hætti á dögunum sem aðstoðarstjóri Newcastle en hann stjórnaði liðinu í tveimur leikjum í janúar, eftir að Sam Allardyce var rekinn frá félaginu og áður en Kevin Keegan var ráðinn í hans stað. Pearson ákvað síðan að yfirgefa Newcastle skömmu eftir að Keegan mætti á svæðið.

Southampton, sem er í 18. sæti 1. deildar, missti George Burley í síðasta mánuði en hann hætti þá störfum hjá félaginu til að gerast landsliðsþjálfari Skotlands. John Gorman og Jason Dodd hafa stýrt liðinu til bráðabirgða síðustu vikurnar.

Pearson er 44 ára gamall og var aðstoðarstjóri hjá WBA eftir að hann hætti hjá Stoke á sínum tíma og þá stýrði hann enska 21-árs landsliðinu í einum leik á síðasta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert