Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur upplýst að hann sé í góðu sambandi við Tom Hicks, annan bandarísku eigendanna hjá félaginu, og fái reglulega hvatningarorð frá honum í tölvupósti. Meira að segja eftir tapið óvænta gegn Barnsley í bikarnum um síðustu helgi.
Fyrir jólin var ekki eins kært á milli þeirra þegar deilur þeirra á milli um hvernig staðið skyldi að leikmannakaupum komu uppá yfirborðið. Ekki bætti úr skák þegar Hicks upplýsti að hann hefði verið búinn að undirstinga Jürgen Klinsmann um að taka við af Benítez ef sú staða kæmi upp.
Hicks hefur síðan gefið til kynna að hann vildi verða sýnilegri og taka meiri þátt í daglegum rekstri á Anfield. George Gillett, meðeigandi hans, hefur hinsvegar haft hægt um sig og Benítez kveðst ekki vera í neinu sambandi við hann. Það hefur leitt til vangaveltna um að Gillett muni jafnvel selja sinn hlut í félaginu.
Þeir Benítez og Hicks hittust í desember til að fara yfir málin og frá þeim tíma hefur samband þeirra verið gott. „Síðan þá hef ég fengið hvatningu frá Hicks nánast í hverri viku. Fyrir leiki og eftir leiki, mjög jákvætt, og ég hef svarað og þakkað honum fyrir. Eftir leikinn við Barnsley sagði hann. „Allt í lagi, einbeittu þér nú að Meistaradeildinni.“ Hann er mjög hvetjandi," sagði Benítez vð AP, en í kjölfarið á þeim ósigri vann Liverpool fínan sigur á Inter Mílanó, 2:0, í Meistaradeild Evrópu.
Liverpool mætir Middlesbrough í úrvalsdeildinni í dag og Hicks sendi Benítez einfalt hvatningarskeyti: „Áfram nú."
Liverpool getur farið uppfyrir erkifjendurna og grannana í Everton og í fjórða sætið með sigri í leiknum í dag en fjórða sætið er gífurlega mikilvægt því það gefur keppnisrétt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.