Eduardo fótbrotnaði - Birmingham jafnaði í lokin

Stækkuð mynd af broti Taylors á Eduardo og hér sést …
Stækkuð mynd af broti Taylors á Eduardo og hér sést vel hvernig fóturinn lætur undan högginu. Reuters

Eduardo Da Silva, króatíski framherjinn hjá Arsenal, fótbrotnaði strax á 3. mínútu í dag þegar lið hans gerði jafntefli, 2:2, við Birmingham á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Birmingham jafnaði úr vítaspyrnu á lokasekúndum í uppbótartíma.

Arsenal náði sex stiga forystu í deildinni með jafnteflinu en Manchester United sækir Newcastle heim kl. 17.15 og getur þá minnkað muninn í þrjú stig stig.

Martin Taylor, varnarmaður Birmingham, var rekinn af velli strax á 3. mínútu fyrir að brjóta illa á Eduardo. Átta mínútna hlé var gert á leiknum og hlúð að Eduardo þar til hann var borinn af velli. Samherjum hans var afar brugðið því fótur Eduardos var greinilega illa brotinn. Nicklas Bendtner kom í hans stað.

James McFadden kom samt Birmingham yfir með glæsilegu marki, beint úr aukaspyrnu af 20 metra færi, á 29. mínútu, 1:0.

McFadden fékk síðan dauðafæri í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar hann komst einn innfyrir vörn Arsenal en Philippe Senderos náði að trufla hann og Skotinn skaut framhjá. Leiknar voru rúmar 54 mínútur í fyrri hálfleik vegna meiðsla Eduardos en staðan 1:0 í hálfleik.

Arsenal gerði harða hríð að marki Birmingham frá upphafi síðari hálfleiks og uppskar jöfnunarmark á 49. mínútu þegar Emmanuel Adebayor skallaði að marki eftir hornspyrnu og Theo Walcott skoraði af stuttu færi, 1:1.

Þetta var fyrsta mark Walcotts í úrvalsdeildinni og hann beið ekki lengi eftir því næsta. Á 55. mínútu náði hann boltanum af varnarmanni Birmingham, lék uppað vítateig og skoraði með föstu vinstrifótarskoti, 1:2.

Skömmu síðar átti Cesc Fabregas skot í stöng og Arsenal virtist ekki í vandræðum með að innbyrða sigurinn.

En á þriðju mínútu í uppbótartíma fengu 10 leikmenn Birmingham vítaspyrnu þegar Gael Clichy braut klaufalega á Stuart Parnaby. James McFadden tók spyrnuna og skoraði af öryggi, 2:2. Leikmenn Arsenal hófu leik á miðju og síðan var flautað af.

Lið Birmingham: Maik Taylor, Martin Taylor, Liam Ridgewell, David Murphy, Stephen Kelly, Damien Johnson, Olivier Kapo (Mauro Zarate 59.), Sebastian Larsson (Mehdi Nafti, 66.), Fabrice Muamba, James McFadden, Mikael Forssell (Stuart Parnaby 15.)
Varamenn: Colin Doyle, Cameron Jerome.

Lið Arsenal: Manuel Almunia, Bacary Sagna, William Gallas, Philippe Senderos, Gael Clichy, Theo Walcott (Gilberto Silva 89.), Cesc Fabregas, Mathieu Flamini, Aleksandr Hleb (Denilson 89.), Eduardo Da Silva (Nicklas Bendtner 8.), Emmanuel Adebayor.
Varamenn: Jens Lehmann, Justin Hoyte.

Martin Taylor hittir beint á fót Eduardo Da Silva, með …
Martin Taylor hittir beint á fót Eduardo Da Silva, með alvarlegum afleiðingum. Reuters
Mike Dean dómari rekur Martin Taylor af velli fyrir brotið …
Mike Dean dómari rekur Martin Taylor af velli fyrir brotið á Eduardo. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert