Aston Villa með útisigur á Reading

Ívar Ingimarsson lék síðustu 20 mínúturnar í dag.
Ívar Ingimarsson lék síðustu 20 mínúturnar í dag. Reuters

Aston Villa sigraði Reading, 2:1, á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Ashley Young og Marlon Harewood skoruðu mörkin, sitt í hvorum hálfleik en Nicky Shorey svaraði fyrir Reading í lokin.

Villa náði þar með Liverpool og Everton með 47 stig en er áfram í sjötta sætinu á lakari markatölu en hin tvö. Reading tapaði hinsvegar sínum áttunda leik í röð og situr sem fastast í þriðja neðsta sæti deildarinnar.

Á 32. mínútu fékk Aston Villa vítaspyrnu þegar skotið var í hönd varnarmanns Reading. Gareth Barry, enski landsliðsmaðurinn, tók spyrnuna en skaut langt framhjá marki Reading!

Aston Villa náði forystunni á lokamínútu fyrri hálfleiks. Gabriel Agbonlahor sprengdi þá upp vörn Reading, óð upp hægra megin og renndi boltanum á Ashley Young sem skoraði af öryggi, 0:1.

Ívar var í leikbanni í síðasta leik og kom því inní hópinn á ný. Hann var meðal varamanna en var skipt inná fyrir Cisse á 71. mínútu.

Marlon Harewood kom Villa síðan í 2:0 á 84. mínútu eftir skyndisókn og sendingu frá Young.

Nicky Shorey náði að svara fyrir Reading þegar hann skoraði beint úr aukaspyrnu, 1:2, á lokasekúndunum í uppbótartíma.

Brynjar Björn Gunnarsson er enn meiddur og var ekki í leikmannahópi Reading.

Lið Reading: Hahnemann, Murty, Sonko, Cisse, Shorey, Oster, Harper, Matejovsky, Hunt, Doyle, Kitson.
Varamenn: Ívar, Federici, Bikey, Long, Kebe.

Lið Aston Villa: Carson, Laursen, Bouma, Gardner, Davies, Maloney, Barry, Reo-Coker, Young, Carew, Agbonlahor.
Varamenn: Harewood, Taylor, Knight, Salifou, Osbourne.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert