Tom Hicks, annar eigenda enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir að það sé ekkert til í fregnum um að hann hyggist selja hlut sinn í félaginu til arabísku fjárfestanna Dubai International Capital.
The Times fjallaði um málið í dag og sagði að þeir Hicks og George Gillett jr. hefðu heimilað DIC að skoða bókhald félagsins. Þessu hafnar Hicks alfarið og í yfirlýsingu frá honum segir:
„Fréttir í breskum fjölmiðlum um að ég sé í þann veginn að selja hlut minn í knattspyrnufélaginu Liverpool, eða að bjóða DIC að skoða bókhald félagsins til undirbúnings sölu, er algjörlega ósönn, rétt eins og aðrar fréttir af sama meiði sem komið hefur verið í breska fjölmiðla undanfarnar vikur af aðilum sem eru með aðra hagsmuni.
Staðreyndin er sú að ég hef algjörlega helgað mig félaginu og stuðningsmönnum þess, persónulega, faglega og fjárhagslega, og mun halda því áfram af bestu getu."