Martin Taylor, varnarmanni Birmingham, hafa borist líflátshótanir í kjölfarið á tæklingunni á Eduardo framherja Arsenal sem varð til þess að hann fótbrotnaði afar illa.
Stuðningsmenn króatíska landsliðsins eru afar reiðir yfir því að Eduardo getur ekki leikið með liðinu í úrslitakeppni EM í sumar og hafa nokkrir þeirra sent Taylor morðhótanir í gegnum veraldarvefinn. Sérstök síða var opnuð eftir atvikið á St.Andrews og í gærkvöld hafði á fjórða tug þúsunda manna sent skilaboð til Taylors og innihéldu sum þeirra hótanir í hans garð.
,,Það hefur verið mikil bræði út af þessu atviki og þetta hefur farið yfir strikið. Ég hef heyrt af þessum líflátshótunum og það er fáránlegt ef það er rétt. Það sýnir bara að það er til sumt brjálað fólk í heiminum,“ sagði Alex McLeish við Sky Sports sjónvarpsstöðina í gær.