John Terry, fyrirliði Chelsea, styður val Avram Grants, knattspyrnustjóra félagsins, varðandi val hans á liðinu fyrir úrslitaleikinn á móti Tottenham í deildabikarnum á sunnudaginn. Þar tapaði Chelsea 2:1.
Orðrómur hefur verið uppi um óánægju leikmanna Chelsea með val Grants á liðinu og eins hvernig hann heldur liðsskipaninni fyrir sig sjálfan og að leikmenn fái ekki að vita hverjir eigi að spila fyrr en seint og um síðir.
„Stórinn heldur þessu fyrir sig og þannig hefur það verið fyrir alla leiki okkar. Hann hefur þetta svona og það ætti að halda okkur öllum á tánum og sem leikmaður verðum við að sætta okkur við þetta,“ segir Terry.
Hann viðurkenndi að það hefði verið sárt að tapa leiknum við Tottenham en benti á að mikið væri enn eftir af vetrinum. „Við erum enn með í þremur stórum mótum. Deildin er ekki búin, síðan er það Meistaradeildin og bikarkeppnin. Við getum gert tvennt. Rýnt í tapið gegn Tottenham og klúðrað á hinum stöðunum í kjölfarið eða einbeitt okkur að framhaldinu og reynt að gera eins vel og kostur er þar,“ segir Terry.
Michael Ballack byrjaði á varamannabekknum á sunnudaginn og hann segir leikmenn verði að sætta sig við að vera ekki í byrjunarliði. „Ég verð að sætta mig við ef ég er ekki valinn í liðið og það verða allir leikmenn að gera. Þetta er ákvörðun þjálfarans og þegar hann tilkynnir liðið þýðir ekkert að væla,“ segir Ballack.