Enska knattspyrnufélagið Arsenal staðfesti í dag að króatíski framherjinn Eduardo Da Silva væri kominn heim af sjúkrahúsi í London en þar lá hann frá því hann fótbrotnaði illa í leiknum við Birmingham á laugardaginn.
„Eduardo vill enn og aftur þakka fyrir þann ótrúlega fjölda af bataóskum sem honum hafa borist," segir á vef Arsenal. Talið er að hann verði í kringum níu mánuði að jafna sig eftir fótbrotið og gæti því verið kominn á ferðina á aftur með liðinu um næstu jól.