Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, segir að þó svo liðinu takist að sigra í Meistaradeildinni yrði það ekki næg sárabót fyrir þau vonbrigði sem liðið hefur valdið í ensku úrvalsdeildinni.
Liverpool er í fimmta sæti deildarinnar, 17 stigum á eftir Arsenal, sem er með forystu og á fyrir höndum harða baráttu um fjórða sætið sem gefur sæti í Meistaradeildinni að ári.
„Mér líður hálf illa í hvert sinn sem ég lít á töfluna og sé hvað við erum langt á eftir Arsenal. Við höfðum trú á að við værum með mannskap til að verða meistarar og við vildum það miklu frekar en að vinna einhvern annan titil sem er í boði,“ segir hinn 27 ára gamli fyrirliði.
Hann segir að nú verði liðið að taka sig á og fjórða sætið sé það minnsta sem það geti sætt sig við. „Þó svo við verðum Evrópumeistarar - og það er mjög mikið eftir af þeirri keppni - þá yrði það ekki næg sárabót fyrir vonbrigðin sem við höfum valdið í úrvalsdeildinni,“ segir Gerrard.