Grant sakar fréttamenn um lygar

Avram Grant knattspyrnustjóri Chelsea.
Avram Grant knattspyrnustjóri Chelsea. Reuters

Avram Grant knattspyrnustjóri Chelsea sakar breska fjölmiðla um lygar en Ísraelinn er afar ósáttur hvernig fjölmiðlar hafa fjallað um liðið eftir að það tapaði fyrir Tottenham í úrslitaleik deildabikarsins á Wembley um síðustu helgi.

Grant sakar þá sem hafa lastað Chelsea fyrir ónákvæman fréttaflutning og skort á virðingu fyrir störfum sínum.

„Ég bar virðingu fyrir fjölmiðlum á Englandi jafnvel þótt þið hafið ekki tekið mér vel í byrjun en síðan hef ég heyrt og séð mikið af lygum. Þið eruð að reyna að skaða liðið, skaða félagið bara af því við töpuðum einum leik,“ sagði Grant á vikulegum fréttamannafundi í dag.

Fjölmiðlar hafa greint frá því að leikmenn Chelsea hafi verið mjög ósáttir fyrir og eftir leikinn við Tottenham með leikskipulag og liðsuppstillingu og þá voru vangaveltur um að yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu, Frank Arnesen, vilji frá Frank Rijkaard þjálfara Barcelona til að taka við liðinu í sumar.

,,Þetta er tóm þvæla. Leikmenn höguðu sér mjög vel og ég held að þið ættuð að hlusta minna á umboðsmennina,“ sagði Grant.

Chelsea hefur tapað þremur leikjum af þeim 35 sem Grant hefur stjórnað liðinu en Chelsea lá fyrir Manchester United, Arsenal og Tottenham. Þegar Jose Mourinho var við stjórnvölinn hjá Chelsea tapaði liðið aldrei fyrir þessum liðum.

Chelsea mætir Íslendingaliðinu West Ham á morgun og þarf á þremur stigum að halda ætli liðið að halda í Arsenal og Manchester United.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert