Takist Englandsmeisturum Manchester United að leggja Frakklandsmeistara Lyon að velli í Meistaradeildinni á Old Trafford í kvöld jafnar United met ítalska liðsins Juventus í Meistaradeildinni.
Met Juventus er tíu sigurleikir í röð á heimavelli og þann árangur jafnar Manchester United með sigri á Lyon en fyrri leiknum í Frakklandi í 16 liða úrslitum keppninnar lyktaði með 1:1 jafntefli.
„Árangur liðsins á heimavelli hefur lagt grunninn að góðum árangri liðsins í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Ég hef sagt það margt oft að það þurfi 10 stig til að komast áfram og ef þú vinnur þrjá heimaleiki er stórt skref stigið því þá þarftu bara að krækja í eitt stig á útivelli. Andrúmsloftið á Old Trafford í Meistaradeildinni er einstakt og það er mikil hvatning fyrir fólk að mæta á Evrópuleiki,“ segir Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri United.