Wenger: Ég er mjög stoltur

Gleði og sorg. Mathieu Flamini og Cesc Fabregas fagna í …
Gleði og sorg. Mathieu Flamini og Cesc Fabregas fagna í leikslok en leikmenn AC Milan eru daufir í dálkinn. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, kvaðst að vonum vera afar stoltur af sínum mönnum eftir að þeir lögðu Evrópumeistara AC Milan, 2:0, á San Siro í Mílanó í kvöld.

„Ég er mjög stoltur af leikmönnunum því við höfum verið undir pressu uppá síðkastið eftir að hafa misst af stigum í úrvalsdeildinni. En það hafði engin áhrif okkur í kvöld, þeir komu mjög ákveðnir til leiks og léku af mikilli ákefð. Við stjórnuðum leiknum og gerðum engin mistök, en vorum líka mjög skapandi.

Nú erum við með á fullu í tveimur stórum mótum og þetta gefur okkur mikinn kraft fyrir lokasprettinn á keppnistímabilinu," sagði Wenger við ITV sjónvarpsstöðina. Arsenal vann AC Milan 2:0 samanlagt og er komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar ásamt Manchester United, Barcelona og Fenerbache.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert