Berlusconi vill endurheimta Shevchenko

Andriy Shevchenko hefur átt erfitt uppdráttar hjá Chelsea.
Andriy Shevchenko hefur átt erfitt uppdráttar hjá Chelsea. Reuters

Silvio Berlusconi, sá frægi stjórnmálamaður og forseti ítalska knattspyrnufélagsins AC Milan, vill endurheimta Andriy Shevchenko frá Chelsea fyrir næsta keppnistímabil.

Chelsea keypti úkraínska sóknarmanninn af AC Milan sumarið 2006 fyrir hvorki meira né minna en 30 milljónir punda, en hann hefur aldrei náð sér fyllilega á strik með enska liðinu. Þar hefur hann gert 20 mörk í 68 leikjum en á sjö árum skoraði Shevchenko 127 mörk í 208 deildaleikjum með AC Milan.

Nú vill Berlusconi fá hann aftur í kjölfarið á því að brasilíski framherjinn Ronaldo slasaðist illa og óvíst er hvort hann spili með AC Milan á ný. „Shevchenko er leikmaður sem getur hjálpað okkur og væri frábær lausn á okkar vanda. Ég tel að Roman Abramovich eigandi Chelsea myndi ekki leggja stein í götu hans. Shevchenko er mér mjög hugleikinn og ég tala oft við hann og stuðningsmenn okkar myndu átta sig á því hve mikilvægur hann gæti reynst okkur," sagði Berlusconi við BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert